Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr.347/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 347/2023

Miðvikudaginn 18. október 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. janúar 2023, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júlí 2023. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið synjað um örorku þar sem að hann hafi ekki fullreynt endurhæfingu, þrátt fyrir að gögn sýni annað. Kærandi hafi fæðst með fæðingargalla, hann sé með ofvöxt í bátsbeini í ökkla, hann gangi með staf af og til og oftar en ekki sé hann alveg rúmliggjandi.

Kærandi hafi farið í aðgerð X ára gamall, […] hafi verið í ristarnar en í dag sé verið að íhuga að stífa ökklann, sem sé verra. Kærandi geti ekki unnið fullan vinnudag, hann sé lærður […]. Lífeyrissjóðurinn hafi metið hann með 50% örorku sem eigi að endurskoða með haustinu. Fæðingargalli sé eitthvað sem kærandi hafi enga stjórn á, hann hafi reynt að vera á vinnumarkaðinum en enginn vilji ráða mann sem sé „óstapill“ í vinnu sökum fötlunar. Tvisvar hafi kærandi reynt sjálfsvíg og sé það mikið til af fjárhagsáhyggjum.

Kærandi geti ekki unnið eins og heilbrigt fólk og hann hafi sótt um örorku síðan 2018 sem hafi alltaf verið synjað. Þess sé óskað Tryggingastofnun verði úrskurðuð til að lesa gögn en ekki kennitölu og sjá hvað ami að.

Kærandi sé á mörkunum að missa eign sína, hann fái ekki atvinnuleysisbætur, félagsstuðning eða bætur. Hann sjái sér ekki fært að lifa þannig eða bjóða […] sínum upp á þannig líf.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Rúmlega sex mánuðir liðu frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun 5. janúar 2023 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júlí 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 5. janúar 2023 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. ágúst 2023, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri að nýju.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum